top of page
Search

Markhópar - Þekkir þú þína viðskiptavini?

Updated: Nov 24, 2022

Markhópur fyrirtækis er neytendahópur sem er líklegur til þess að vilja kaupa vöru þess. Þessi hópur neytenda hefur sameiginleg einkenni líkt og aldur, kyn eða lífsstíl og fara þær breytur eftir því hvers kyns vöruframboð eða fyrirtæki á í hlut.

Hópurinn getur verið lítill eða stór en það ræðst af því hversu sérstæð umrædd vara er. Ef hún er almenn má gera ráð fyrir stórum markhópi en hópurinn þrengist svo eftir því sem varan verður sértækari. Í einföldu máli hafa ekki allir einstaklingar áhuga á því að neyta allra vara og því hefur hugtakið markhópur verið mikið notað í markaðsfræði.


Af hverju þarft þú að þekkja þinn markhóp?

Svarið er í raun einfalt: það hafa ekki allir sömu þarfir eða vandamál og því þarft þú að vita hvaða vandamál þín vara er að leysa og fyrir hvern. Mikilvægt er að fyrirtæki greini markhópa sína sem auglýsingaefni ætti að beinast að þar sem það eykur arðsemi, byggir upp betri sambönd og leiðir til árangursríkari samskipta við viðskiptavini. Það er sérstaklega mikilvægt í dag að stíla efni á rétta hópa þar sem viðskiptavinir gera í ríkari mæli kröfu um sérsniðnar og markvissar auglýsingar.


Hvernig getur þú fundið þinn markhóp?

Það eru ákveðnir þættir fólgnir í því að velja markhóp fyrirtækis eða vöru. Fyrir það fyrsta er gott að líta á markaðinn sem starfað er á og skoða þar samkeppnisaðila og þeirra viðskiptavini. Viðskiptavinir þeirra eru að öllum líkindum svipaðir þínum eigin. Ef þú hefur verið í starfsemi í einhvern tíma er hægt að skoða þín eigin gögn og bera kennsl á breytur sem eru sameiginlegar. Sem dæmi gætu ákveðnir aldurshópar spilað stórt hlutverk í þinni viðskiptasögu. Það er einnig mikilvægt að skoða hver telst ekki til þíns markhóps, sem dæmi ef þú rekur skyndibitastað er ólíklegt að áhugafólk um líkamsrækt sé í þínum helsta markhópi. Það er algjör lykilforsenda árangurs að gögn séu skoðuð og er hægt að kaupa slík gögn eða safna þeim sjálfur.

Eftir að markhópur hefur verið skilgreindur er síðan mikilvægt að halda áfram að mæla og safna gögnum, aðlaga síðan hópinn reglulega að breytingum.

 

Heimildir

Payne, A. og Frow, P. (2013). Strategic Customer Management—Integrating Relationship Marketing and CRM. Cambridge University Press.


What is Target Market? Definition of Target Market, Target Market Meaning. (e.d.). The Economic Times. https://economictimes.indiatimes.com/definition/target-market


Marketing Evolution. (e.d.). How to Find Your Target Audience. https://www.marketingevolution.com/marketing-essentials/target-audience


The Investopedia Team. (2021, 10. september). What Is Target Market? Investopedia. https://www.investopedia.com/terms/t/target-market.asp

bottom of page