SVÓT greining er greiningartól fyrir fyrirtæki eða stofnanir sem var hannað af fjórum prófessorum við Harvard háskólann í Bandaríkjunum árið 1965. Greiningartólið var fyrst sinnar tegundar en áður fyrr var lítið verið að gera grein fyrir ytra umhverfi fyrirtækja. Tólið er mikið notað í markaðsfræði nú til dags og þá sérstaklega í markaðsdeildum fyrirtækja. Við framkvæmd slíkrar greiningar er aflað upplýsinga um styrkleika og veikleika í innra umhverfi fyrirtækis og um ógnanir og tækifæri í ytra umhverfi þess. Mikilvægt er að framkvæma slíka greiningu í undirbúningi fyrir markaðsstarf, en styrkleikar geta falið í sér aðgreiningu sem leiðir til samkeppnisforskots og veikleikar geta gert grein fyrir atriðum sem þarf að fylgjast með, einhverjum hömlum ef svo má að orði komast. Tækifæri er hægt að nýta við uppbyggingu markaðsstefnumótar fyrirtækis og með því að þekkja ógnanir er hægt að gera ráðstafanir til að verjast þeim.
Styrkleikar
Styrkleikar eru þeir þættir fyrirtækis sem eru jákvæðir og hafa áhrif á samkeppnisstöðu og áhrif á þróun þess til lengdar. Það er talið mikilvægt að gera grein fyrir þessum þáttum þar sem þeir taka á því sem fyrirtækið sjálft gerir vel og þeim þáttum sem má hagnýta.
Veikleikar
Veikleikar eru, líkt og styrkleikar, þættir í innri starfsemi fyrirtækis. Veikleikar eru neikvæðir og hafa því neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækisins og þróun þess. Að bera kennsl á veikleika fyrirtækis er mikilvægt að því leytinu til að hægt er að bæta þá þætti eða jafnvel útrýma þeim.
Ógnanir
Ógnanir finnast í ytra umhverfi fyrirtækis og er oft ekki borin kennsl á þær nema í stefnumótandi aðgerðum. Það er mikilvægt að bera kennsl á ógnanir í tæka tíð og bregðast við þeim, ef ekki er borin kennsl á ógnanir í tæka tíð getur það haft neikvæð áhrif á rekstur og afköst.
Tækifæri
Að bera kennsl á tækifæri krefst þess að líta á ytra umhverfi fyrirtækis og eru þeir þættir háðir umhverfinu. Með því að bera kennsl á tækifæri er hægt að vinna í átt að betri samkeppnisstöðu og gera úrbætur sem hafa jákvæð áhrif á fyrirtækið. Ef tækifærin eru nýtt á réttan máta getur það til langs tíma orðið að styrkleikum.
Heimildir
50MINUTES og Minutes 50. (2015b). The SWOT Analysis: A Key tool for Developing Your Business Strategy (21. bindi). Lemaitre Publishing. https://ebookcentral.proquest.com/lib/bifrostis/detail.action?docID=4006313
Kotler, P. T., Keller, K. L., Goodman, M., Brady, M. og Hansen, T. (2016). Marketing Management (3. útgáfa). Pearson.
Comments