top of page
Search

Ansoff líkanið

Updated: Nov 24, 2022

Ansoff líkanið segir frá þeim möguleikum sem fyrirtæki hefur til þess að fara inn á markaði með þá vöru sem það hefur í höndunum. Það var þróað af Igor Ansoff, þekktur sem frumkvöðull stefnumiðaðar stjórnunar, árið 1957. Líkanið tekur á tveimur tegundum af mörkuðum; nýjum og núverandi og tveimur tegundum af vörum; nýjum eða núverandi. Ansoff líkanið er meðal mest notuðu líkönum í heiminum þegar kemur að því að finna ákjósanlegustu leiðina fyrir fyrirtæki sem vilja stækka. Líkanið er notað til þess að hjálpa fyrirtækjum að bera kennsl á sína vaxtarmöguleika. Einnig hjálpar það stjórnendum fyrirtækja að bera kennsl á hætturnar sem ber að varast. Í Ansoff líkaninu eru fjórir möguleikar sem standa fyrirtækjum til boða.


Markaðsáhersla

Sá fyrsti er nefndur markaðsáhersla (e. market penetration) þar sem fyrirtæki heldur áfram á núverandi markaði með núverandi vöruframboð sitt eða þjónustu. Markmiðið með þessari leið er þá að auka sölu á vöru sem þegar er til á núverandi markaði. Ef þessi leið er farin er oft reynt að fá núverandi kaupendur til að vera hollari vörumerkinu þannig að þeir kaupi alltaf sama merkið eða þá fái nýja viðskiptavini á sama markaði til þess að kaupa vöruna. Einnig er hægt að fá núverandi kaupendur til þess að nota vöruna oftar og nota meira magn í einu. Þetta er áhættuminnsta aðferðin í Ansoff líkaninu.


Vöruþróun

Næsti möguleiki er vöruþróun (e. product development) en það er þegar fyrirtæki eykur sölu með því að bæta núverandi vörur eða þróa nýjar vörur fyrir sama markað. Með því er þá verið að bæta við vöruúrval fyrir núverandi viðskiptavini. Ef þessi leið er farin þurfa fyrirtæki að einblína á vöruþróun og tileinka sér að komast að þörfum viðskiptavina hverju sinni og átta sig á því hvernig þær þarfir eru að breytast. Með vöruþróun er hægt að gera framleiðslu ódýrari og bæta gæði.


Markaðsþróun

Þriðji möguleikinn er markaðsþróun (e. market development) en það er þegar fyrirtæki eykur sölu með því að markaðssetja núverandi vörur á nýjum markaði. Það getur falið í sér að selja vörur erlendis eða finna nýja markaðshluta á því starfssvæði sem unnið er á.


Aðgreining

Fjórði og síðasti valmöguleikinn er aðgreining (e. diversification) þar sem fyrirtæki framleiða nýjar vörur fyrir nýjan markað. Þessi leið getur verið möguleiki þegar núverandi vörur og markaðir bjóða ekki upp á frekari vaxtarmöguleika. Þetta er áhættumesta aðferðin og þarf að spyrja sig hversu mikið fyrirtæki þolir að vaxa með nýja vöru á nýjum markaði en það fer að miklu leyti eftir stærð þess og getu.

 

Heimildir


Chaffey, D. og Ellis-Chadwick, F. (2019). Digital Marketing: Strategy,

Implementation and Practice (7.útgáfa). Pearson.

bottom of page