top of page

PERSÓNUVERND Í KERFINU

Persónuvernd í Zenter kerfinu

Upplýsingar sem þjónustukaupi þarf að hafa í huga vegna laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“).

 

Hvað eru persónuupplýsingar?

 • Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að rekja til tiltekins einstaklings. Dæmi um persónuupplýsingar eru nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer, netfang, netauðkenni og staðsetningargögn.

 • Upplýsingar um fyrirtæki og aðra lögaðila teljast alla jafna ekki persónuupplýsingar. Upplýsingar um tengiliði þeirra flokkast þó sem persónuupplýsingar, til dæmis upplýsingar um nafn þeirra og vinnunetfang.

 

Má ég vinna með persónuupplýsingar í Zenter kerfinu?

 • Ef unnið er með persónuupplýsingar í Zenter kerfinu þarf þjónustukaupi að ganga úr skugga um að heimild samkvæmt persónuverndarlögum sé fyrir hendi, sjá nánar hér.

 • Þjónustukaupi verður einnig að fylgja meginreglum persónuverndarlaga. Einkum er mikilvægt að einstaklingar séu meðvitaðir um að verið sé að vinna með upplýsingar um þá.

 

Af hverju ber þjónustukaupi ábyrgð á að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við persónuverndarlög?

 • Þjónustukaupi telst ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga að vinnslu persónuupplýsinga í Zenter kerfinu. Ábyrgðaraðili þarf að ganga úr skugga um að heimild standi til vinnslu persónuupplýsinga og meginreglum laganna sé fylgt. Sjá nánar hvað ábyrgðaraðili þarf að hafa í huga hér.

 

Hvert er hlutverk Zenter m.t.t. persónuverndarlaga?

 • Zenter telst vinnsluaðili í skilningi persónuverndarlaga en það er sá aðili sem vinnur með persónuupplýsingar fyrir hönd ábyrgðaraðila. Hlutverk fyrirtækisins er fyrst og fremst bundið við að tryggja öryggi persónuupplýsinga í samræmi við persónuverndarlög og vinnslusamning sem gerður er samhliða þjónustusamningi við þjónustukaupa. Sjá nánar hvernig Zenter tryggir öryggi upplýsinga hér.

 

Hvar nálgast ég vinnslusamning frá Zenter?

 • Vinnslusamningur er gjarnan gerður samhliða þjónustusamningi. Ef þú hefur ekki gert vinnslusamning hvetjum þig til að sækja hann hér. Í kjölfarið máttu fylla hann út og senda okkur á netfangið zenter@zenter.is.

 

Hvernig á ég að fylla út vinnslusamning?

 • Í vinnslusamningi þarf þjónustukaupi sem ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga að tilgreina í viðauka 1 við samninginn þann flokk persónuupplýsinga sem unnið er með í kerfinu, til dæmis nöfn, kennitölur, netföng, heimilisföng og símanúmer einstaklinga. Einnig þarf þjónustukaupi að tilgreina þann flokk einstaklinga sem um ræðir, til dæmis starfsmenn, viðskiptavinir eða tengiliðir.

 

Bein markaðssetning

Upplýsingar sem þjónustukaupi þarf að hafa í huga vegna persónuverndarlaga og laga nr. 81/2003 um fjarskipti.

 

Má ég senda tölvupóst eða sms á einstaklinga í þeim tilgangi að selja þeim vöru eða þjónustu?

 • Heimilt er að hafa samband við einstaklinga í gegnum tölvupóst eða sms þegar þeir hafa veitt samþykki sitt fyrir því. Samþykki þarf að vera veitt með fullnægjandi hætti, sjá nánar hér.

 

Þarf ég alltaf samþykki frá einstaklingi til að hafa samband við hann?

 • Ekki er í öllum tilfellum nauðsynlegt að kalla eftir samþykki frá einstaklingum. Heimilt er að senda tölvupóst á viðskiptavini í þeim tilgangi að selja eigin vörur eða þjónustu. Gefa verður þó viðskiptavini kost á að andmæla slíkri sendingu, bæði þegar skráning á sér stað og í hvert skipti sem skilaboð eru send. Athugaðu að hér er eingöngu átt við tölvupóst. Ef senda á einstaklingi sms þarf samþykki hans alltaf að koma til.

 

Má ég hringja í einstaklinga í þeim tilgangi að selja þeim vöru eða þjónustu?

 • Þeir sem nota almenna tal- og farsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi vilji ekki slíkar úthringingar í símanúmer sitt. Viðkomandi á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu til grundvallar.

 

Má ég kaupa lista frá þriðja aðila, með upplýsingum um einstaklinga sem ekki eru mínir viðskiptavinir, til að nota í tengslum við markaðssetningarstarfsemi?

 • Já ef þeir einstaklingar hafa veitt samþykki sitt fyrir því. 

 • Ef samþykki er ekki fyrir hendi er seljanda einungis heimilt að afhenda þér þær ef:

 • Ekki er um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða;

 • Viðkomandi einstaklingum hefur áður verið gefinn kostur á að andmæla því að upplýsingar um þá birtist á listanum

 • Afhendingin fer ekki gegn starfsreglum eða félagssamþykktum seljanda;

 • Búið er að fjarlæga upplýsingar um þá einstaklinga sem hafa komið andmælum á framfæri við Þjóðskrá Íslands.

 

Er svarið við þinni spurningu ekki að finna hér? Ekki hika við að senda á okkur línu á netfangið zenter@zenter.is og við svörum þér eins fljótt og auðið er.

bottom of page