Fyrirlestrar

Að kveikja á kjarnorkunni

Getur verið að virk hlustun sé áhrifaríkasta leiðin til ná árangri og hvetja fólk til dáða? Hvernig getur samtalstækni hjálpað til við að kveikja á kjarnorkunni hjá fólki? Ágústa dregur fram í dagsljósið hvernig sjálfsagðir hlutir í samskiptum gera gæfumuninn fyrir starfsgleðina.

Umsögn:

„Þessi fyrirlestur var frábær. Komið var inná marga þætti er lúta að virkri hlustun, hrósi og almennri samskiptatækni. Alltaf gott að láta minna sig á þessa þætti og hvatti mann til dáða. Ágústa er skemmtilegur fyrirlesari, hélt athyglinni og það var mikið hlegið, ásamt því að fjörugar umræður sköpuðust. Hún braut upp fyrirlesturinn með leik semminnti okkur á hvað fólk er ólíkt. Get óhikað mælt með þessu.“ - Eyrún Björk Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ.

Betra er illa gert en ógert

Það að eiga alltaf að vera besta útgáfan af sjálfum sér er óvinnandi vegur. Það er tímabært að sætta sig við að við erum ófullkomin – og það er í lagi. Hættum að upphefja það að vera önnum kafin. Hófstilt líf er gott líf. Gefum efstastiginu frí – og njótum lífsins á afslappaðri hátt. Fyrirlesari tileinkar 2016 meðalhófinu og telur sig hafa fundið afsökun – eða stuðning – fyrir því að segja skilið við fullkomnunaráráttuna í fræðum Dr Brené Brown og kenningum jákvæðu sálfræðinnar.

Umsögn:

„Ragnhildur er skemmtilegur fyrirlesari. Hún heldur athygli með fræðandi efni, en gætir þess að hafa fyrirlesturinn líflegan og skemmtilegan og mátti oft heyra hlátrasköll félagskvenna. Öllum bar saman um að þetta hefði verið mjög athyglisverður og skemmtilegur fyrirlestur. Efni sem á erindi bæði til karla og kvenna.“ - Anna K. Norðdahl í stjórn BWP

Markþjálfun – stutt kynning, rétt til að kitla bragðlaukana

Er markþjálfun enn ein töfralausnin sem á að bjarga öllu eða er hún þess virði að kynnast henni nánar? Markþjálfun er aðferð sem er notuð til að efla fólk til árangurs. Í fyrirlestrinum er rakið hvað aðgreinir markþjálfun frá öðrum aðferðum og hvers vegna hún er jafn árangursrík og raun ber vitni.

Umsögn:

„Fyrirlestur Ragnhildar um markþjálfun kom skemmtilega á óvart. Ég vissi ekkert um efnið áður en hún setur það þannig fram að maður kemst ekki hjá því að sannfærast um að það eigi erindi við mann. Það sem ég lærði einna mest af og hef reynt að fara eftir er að maður á hlusta á annað fólk og leyfa því að tjá sig og tala minna sjálfur.“ - Jón Þorgeir Einarsson endurskoðandi

Hvort viltu vera gleðigjafi eða fýlupúki?

Fyrirlesari leitar í kistu jákvæðrar sálfræði og kynnir ýmsar leiðir til að auka hamingju og vellíðan í lífi og starfi.

Umsögn:

„Fyrirlesturinn í heild sinni var yndislegur. Við mættum með engar væntingar og urðum mjög ánægðar með útkomuna. Hún Ragnhildur var einn sá skemmtilegasti fyrirlesari (uppistandari) sem við höfum hlítt á og fannst okkur við hafa setið og horft á skemmtiatriði í klukkutíma. Við komum út brosandi og brosum enn. Hún gefur góð ráð til þess að æfa jákvætt hugarfar og gerir það á mjög svo skemmtilegan hátt. Við mælum eindregið með því að allir fari á erindi með Ragnhildi og bíðum spenntar eftir að skrá okkur á næsta fyrirlestur.“ - Þórhildur, Ingibjörg og Olga, Nói Siríus hf

Óska eftir frekari upplýsingum